Gildi lífeyrissjóður telur að kaupréttir sem æðstu stjórnendur Eimskipafélags Íslands héldu um hafi brotið gegn starfskjarastefnu Eimskips og gegn ákvæði hlutafélagalaga um kauprétti. Að mati lögmanna lífeyrissjóðsins voru kaupréttir, alls fimm milljónir hluta, á árunum 2011 og 2012 ólöglega veittir. Fjármálaeftirlitinu var sent lögfræðiálit vegna málsins í byrjun nóvember þar sem farið var fram á rannsókn.

Málið fór á borð Fjármálaeftirlitsins en Festa lífeyrissjóður taldi að fyrirvararnir sem margir gerðu hefðu byggt á innherjaupplýsingum. Eftirlitið upplýsti um niðurstöðu rannsóknar sinnar um miðjan nóvember og sagði að ekki hefðu fundist dæmi um brot á lögum. Aftur á móti gaf tilkynning FME ekki til kynna að áðurnefndar athugasemdir Gildis hefðu verið rannsakaðar samtímis.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa engin svör varðandi þennan þátt málsins, sem snýr að starfskjarastefnu Eimskips og hlutafélagalögum, borist frá FME að öðru leyti en því en að eftirlitið staðfesti að erindið hafi borist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.