Rannsókn á meintri markaðsmisnotkun Straums Burðaráss Fjárfestingarbanka (nú ALMC) er komin á borð sérstaks saksóknara. Um er að ræða kæru varðandi viðskipti bankans með eigin hlutabréf á árunum fyrir hrun og leikur grunur á að bankinn hafi keypt og selt bréf til að hafa áhrif á verðmyndum bréfanna. Fjallað er um málið í DV í dag og er haft eftir Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara að hann geti ekki tjáð sig um málið að svo stöddu. Sams konar markaðsmisnotkun hefur verið til rannsóknar hjá embættinu varðandi stóru gömlu bankana þrjá í aðdraganda hruns.

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir var stærsti hluthafi Straums Burðaráss Fjárfestingarbanka fyrir efnahagshrunið 2008. DV hefur eftir Ragnhildi Sverrisdóttur, talskonu Björgólfs, að hún hafi ekki heyrt um kæruna og að Fjármálaeftirlitið hafi ekki haft samband við Björgólf vegna hennar.