Mörg möguleg brot á skattalöggjöf hafa komið fram í umfangsmikilli greiningarvinnu sérstaks starfshóps skattrannsóknarstjóra á starfsemi bankanna fyrir hrun.

Starfshópurinn hefur unnið við að greina möguleg skattalagabrot gömlu viðskiptabankanna þriggja, eigenda þeirra, starfsmanna og viðskiptavina allt að þrjú ár aftur í tímann.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur hópurinn komist að upplýsingum um nokkur mjög stór mál. Grunur leikur á um að bankarnir hafi ekki skilað þeim sköttum sem þeim bar að skila, hvort sem það var vegna starfsemi þeirra sjálfra eða vegna staðgreiðslu skatta vegna gerninga sem þeir framkvæmdu fyrir viðskiptavini sína. Meðal annars er verið að kanna hvort rétt hafi verið staðið að skattgreiðslum vegna framvirkra samninga og annarra afleiðusamninga.

Skilar skýrslu 15. apríl

Hópurinn, sem hefur starfað frá því í október í fyrra, er skipaður átta sérfræðingum embættis skattrannsóknarstjóra. Þeir starfa eingöngu að rannsókninni á háttsemi bankanna. Hann mun skila af sér skýrslu 15. apríl næstkomandi.