Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlar að rannsaka yfirtökutilboð lággjaldaflugfélagsins Ryanair í sumar í írska keppinautinn Aer Lingus. Tilboðið var lagt fram í júní. Miðað við það er heildarverðmæti Aer Lingus 694 milljónir evra, jafnvirði rétt rúmra 100 milljarða íslenskra króna. Ryanair á 30% hlut í Aer Lingus.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins (BBC) að framkvæmdastjórnin óttist að kaupin brjóti í bága við samkeppnislög.

Ryanair hefur nokkrum sinnum reynt að taka keppinautinn yfir. Síðast var það reynt árið 2007. Framkvæmdastjórnin kom hins vegar í veg fyrir það á sínum tíma þar sem flugleiðir félaganna skarast.

Framkvæmdastjórnin gefur sér frest til 14. janúar næstkomandi hvort hún gefi græna ljósið á kaupin eður ei.