Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar meint auðgunarbrot og peningaþvætti forstöðumanns verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. og hefur verið krafist gæsluvarðhalds yfir honum. Úrskurðað verður í gæsluvarðhaldskröfunni kl. 13 í dag.

Annar maður, sem talinn er vera vitorðsmaður forstöðumannsins, er þegar í gæsluvarðhaldi. Þess hefur verið krafist, af hálfu efnahagsbrotadeildar, að báðir verði í gæsluvarðhaldi fram til föstudags vegna rannsóknarhagsmuna.

Sá fyrrnefndi var handtekinn á föstudag eftir húsleit lögreglunnar í húsakynnum Virðingar. Sá síðarnefndi, sem var erlendis á þeim tíma, var handtekinn á sunnudag. Hann er enn í haldi.

Grunaðir um peningaþvætti til að koma gróðanum undan

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er forstöðumaður Virðingar, Friðjón Þórðarson, grunaður um að hafa nýtt sér upplýsingar sem hann hafði stöðu sinnar vegna til þess að hagnast á gjaldeyrisviðskiptum.

Þá er hann og meintur vitorðsmaður grunaðir um að hafa stundað peningaþvætti til að koma gróðanum undan.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að Friðjón neitaði því að hafa gerst brotlegur við lög.

Rannsókn beinist ekki að Virðingu

Á vef Virðingar er áréttað í sérstakri yfirlýsingu frá stjórnarformanni félagsins, Þresti Olaf Sigurjónssyni, að aðgerðin og yfirstandandi lögreglurannsókn beinist ekki að Virðingu.

„Enginn grunur er um að Virðing hafi brotið lög heldur beinist rannsóknin að mögulegri misnotkun markaðsupplýsinga eins starfsmanns fyrirtækisins í málum sem Virðing á engan hlut að. Ekki var hróflað við sjóðum Virðingar, engum fjármunum skotið undan og viðskiptavinir fyrirtækisins hafa engan skaða hlotið," segir í yfirlýsingu stjórnarformannsins.

Þar segir enn fremur að stjórn og starfsmenn Virðingar hafi aðstoðað lögreglu við rannsókn málsins og að þeir muni gera það áfram verði þess óskað. „Fyrirtækið leggur áherslu á að um er að ræða opinbert lögreglumál sem er óviðkomandi starfsemi Virðingar og vegna rannsóknarhagsmuna mun fyrirtækið ekki tjá sig frekar um málið meðan rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fer fram."