Rannsókn embættis sérstaks saksóknara á máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, hefur verið vísað til ríkissaksóknara til ákærumeðferðar.  Rannsókn að hálfu sérstaks saksóknara telst lokið að því er greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Rannsóknin hefur beinst að hlutabréfaviðskiptum Baldurs 18. og 19. september 2008 en þá seldi Baldur hlutabréf í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna. Hefur rannsóknin m.a. beinst að því að Baldur hafi brotið gegn lögum um innherjaviðskipti en hann átti sæti í starfshópi um fjármálastöðugleika á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað. Ástæðan fyrir því að málinu hefur verið vísað til ríkissaksóknara er sú að meint brot Baldurs eru talin fela í sér broti í opinberu starfi og eru þess háttar mál á hendi ríkissaksóknara að taka ákvarðanir um, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2.

Baldur krafðist þess að málinu yrði vísað frá en á það var ekki fallist í Héraðsdómi Reykjavíkur eða Hæstarétti. Þá mótmælti Baldur kyrrsetningu á eignum sínum, sem embætti sérstaks saksóknara fór fram á, en án árangurs.

Ekki er ljóst hvenær mun liggja fyrir hvort Baldur verður ákærður eða ekki.