Tæp þrjú ár eru liðnir frá því fjármálaeftirlitið (FME) kærði sænska félagið Aserta og tengda aðila til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir stórfellt brot á gjaldeyrislögum. Enn hefur engin ákæra verið lögð fram og rannsókn málsins að mestu legið í dvala. Hæstiréttur hefur gagnrýnt seinagang rannsóknarinnar. Í Morgunblaðinu í dag er fjallað ítarlega um málið.

Þar kemur fram að lögmenn sem blaðið hafi rætt við gagnrýni mjög seinaganginn og ekki síður upphaf málsins í janúar árið 2010. Þá boðuðu fulltrúar FME, Seðlabankans og efnahagsbrotadeildar til blaðamannafundar, áður en sakborningarnir sjálfir höfðu verið kallaðir í yfirheyrslur. Haft er eftir fyrrverandi saksóknara efnahagsbrota, Helga Magnúsi Gunnarssyni, að hann sjái eftir því að hafa boðað til blaðamannafundarins.

Tengsl Ingibjargar Guðbjartsdóttur, forstöðumanns gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, hafa einnig vakið athygli þar sem hún veitti sakborningum lögfræðilega aðstoð um gjaldeyrisviðskipti áður en hún hóf störf í Seðlabankanum. Haft er eftir Ingibjörgu í blaðinu í dag að það sé orðum aukið að hún hafi veitt þeim ráðgjöf, hún hafi aldrei fengið neinar greiðslur frá þeim og ekki haft heildarsýn yfir það sem þeir voru að gera.

Í gær boðaði sérstakur saksóknari hina grunuðu til skýrslutöku í júní.