Enn er ekki komin niðurstaða í rannsókn lögreglunnar á meintu broti Gunnars Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. „Ég hef ekkert heyrt frá lögreglunni, en ég geri ráð fyrir því að stjórn FME fái að vita um leið og niðurstaða er komin í málið, í hvora áttina sem hún verður,“ segir Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Í síðustu viku var haft eftir talsmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að rannsókn á máli Gunnars væri „á síðustu metrunum“ en greinilegt er að eitthvað hefur lengst í hlaupinu síðan þá.