Kaupréttarsamningar hafa lengi vakið athygli og umtal, og nú fyrir aðrar sakir en áður. Þegar fjármálakerfið óx og bankarnir voru í blóma vöktu slíkir samningar við stjórnendur og starfsmenn bankanna athygli og jafnvel óhug meðal margra. Talað var um græðgi, ofurlaun og fleira í þeim dúr. Nú vekur þetta orð annars konar ugg og reiði í samfélaginu, vegna umfjöllunar um að skuldir starfsmanna vegna hlutabréfakaupa hafi verið felldar niður – eða persónulegar ábyrgðir felldar niður ef nota á spariorðið yfir slíkan gjörning.

Nú hefur það komið á daginn að starfsmenn Existu bera ekki persónulega ábyrgð á lánum til hlutabréfakaupa í félaginu. Deilt er um hvort og þá hvernig það brýtur á hlutafélagalögum, og virðist greinilega rúm til túlkunar í þeim efnum. Í bréfi til starfsmanna fjárfestingarfélagsins segir: „Lán til starfsmanna sem tóku þátt í starfsmannaútboði í september 2006 eru tryggð með veði í Exista bréfunum. Starfsmenn bera því ekki persónulega ábyrgð á greiðslu lánsins. Hrökkvi andvirði Exista bréfanna ekki fyrir eftirstöðvum þegar lánið fellur á gjalddaga í september 2009 verða engar frekari kröfur gerðar á hendur starfsmönnum og eftirstöðvar lánsins felldar niður.“

Eins og greint var frá í úttekt í Viðskiptablaðinu í gær myndi slík niðurfelling á eftirstöðvum lána starfsmanna flokkast undir launatekjur og samkvæmt þeim munu starfsmenn þurfa að greiða 35,72% tekjuskatt af slíkri niðurfellingu.

Misvísandi yfirlýsingar

Fyrrverandi og núverandi stjórnir Kaupþings sendu frá sér yfirlýsingar í gær vegna umræðna um lánveitingar til starfsmanna bankans til hlutabréfakaupa. Í yfirlýsingu frá nýju stjórninni kemur fram að lánin hafi ekki verið afskrifuð og að engin áform hafi verið eða séu uppi um það. Svo virðist sem nýr banki hafi yfirtekið lánveitingar til starfsmanna gamla bankans vegna kaupa þeirra á hlutabréfum. Það sama virðist vera uppi á teningnum hjá Glitni.

„Allt sem tengist þessum samningum var fært yfir á nýja bankann þannig að þetta hefur ekki komið inn á okkar borð,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, í samtali við Viðskiptablaðið. Samkvæmt heimildum blaðsins er verið að skoða þessi mál hjá nýja bankanum og allt útlit er fyrir að lánin fari í innheimtu í samræmi við aðrar reglur hins nýja banka. Þá er búist við yfirlýsingu frá Glitni vegna þessa máls, en hún hafði ekki borist þegar blaðið fór í prentun.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .