Hægst hefur á aðgerðum bandarískra stjórnvalda eftir að þingið hóf rannsókn á meintum tengslum Donald Trump við stjórnvöld í Rússlandi. Þetta sagði Marc Short ráðgjafi Bandaríkjaforseta á sviði löggjafar við fjölmiðlamenn í gær.

Segir Short að það leiki enginn vafi á því að rannsóknin trufli starfsmenn Hvíta hússins frá því að undirbúa breytingar á löggjöf sem eigi að vera íbúum landsins til hagsbóta.

Ummælin koma í kjölfarið á því að Trump hefur komið litlum sem engum lagabreytingum í gegn um þingið á þeim mánuðum sem hann hefur verið í forsetastólnum. Í staðin hefur mikil athygli verið á tengslum forsetans og aðstoðarmanna hans við Rússland.

Í frétt Business Insider kemur fram að þrátt fyrir að Short segi að tafirnar megi rekja til rannsóknar á Rússa tengslum sem Trump hefur sjálfur kallað nornaveiðar þá sé ástæðan sú að óeining er til staðar innan Repúblikanaflokksins. Ágreiningur milli íhalds- og miðjusinnaðri hluta þingflokksins í fulltrúadeild þingsins hefur meðal annars tafið heilbrigðisfrumvarp forsetans svo mánuðum skipti og það sama á við í Öldungadeildinni.