Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office) tilkynnti í dag að hún væri hætt rannsókn sinni á viðskiptum auðmannsins Vincent Tchenguiz. Embættið ætlar að halda áfram rannsókn sinni á yngri bróður hans, Robert Tchenguiz og viðskiptum hans við Kaupþing í Bretlandi.

Þetta var tilkynnt í dag.

Efnahagsbrotadeildin lét til skarar skríða gegn Tchenguiz-bræðrum í fyrravor og handtók snemma dags í tengslum við rannsókn embættisins á því sem það taldi óeðlilega góðan aðgang þeirra að lánsfjármagni hjá Kaupþingi. Embættið viðurkenndi fyrir stuttu að hafa stuðst við óáreiðanlegar upplýsingar þegar ákveðið var að draga Vincent Tchenguiz inn í málið sem frekar varði Robert Tchenguiz. Sá síðasttaldi var hluthafi í Existu, stærsta hluthafa Kaupþings.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian af málinu kemur fram að Vincent Tchenguiz ætli að halda til streitu skaðabótamáli sínu gegn efnahagsbrotadeildinni vegna þess fjárhagslega tjóns sem hann segir að rannsóknin hafi kostað sig. Bæturnar sem hann fer fram á hljóða upp á 100 milljón pund, jafnvirði tæpra 20 milljarða íslenskra króna.