Tugir eða hundruð einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi gætu staðið frammi fyrir því að þurfa að endurgreiða þá fjárhæð sem nemur skattahagræði vegna stofnunar fyrirtækja í Lúxemborg á liðnum árum.

Þessi félög hafa verið undanþegin skatti á grundvelli laga í Lúxemborg frá 31. júlí 1929 (svokölluð "1929" félög). Það er hins vegar talið stangast á við ákvæði 2. mgr. 88. gr. Rómarsáttmálans sem fjallar um ríkisaðstoð. Hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins því hafið formlega rannsókn á þessum svokölluðu 1929 félögum.

Fjölmargir Íslendingar hafa nýtt sér ákvæði fyrrnefndra laga í Lúxemborg til að skrá þar fyrirtæki í því augnamiði að nýta þau síðan sem stökkpall til fjárfestinga í Evrópu. Mikið bar á þessu á árunum 1999 og 2000. Annað sambærilegt mál hefur komið upp varðandi íslensk lög um alþjóðleg viðskiptafélög. Eftirlitsstofnun EFTA tók það fyrir á sínum tíma á þeim forsendum að um dulinn ríkisstyrk væri að ræða. Voru lögin afnumin með svokölluðu sólarlagsákvæði og falla endanlega úr gildi 1. janúar 2008. EFTA dómstóllinn kvað síðan upp dóm í málinu árið 2005. Var hann á þá leið að Íslendingum bæri að fara eftir úrskurði ESA og gera ráðstafanir til að endurkrefja íslensk alþjóðleg viðskiptafélög um endurgreiðslu á sköttum þar sem um ríkisaðstoð væri að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag.