Sala Festi á Kjarvals verslun á Hellu, til óstofnaðs einkahlutafélags Sigurðar Elíasar Guðmundssonar, stoppaði meðal annars á rökstuddu áliti óháðs kunnáttumanns samkvæmt sátt sem Festi gerði við Samkeppniseftirlitið (SKE). Eftirlitið hefur hafið rannsókn á því hvort Festi hafi brotið gegn fyrrgreindri sátt. Þetta kemur fram í frétt á vef SKE.

Sumarið 2018 ritaði Festi undir sátt við SKE til að samruni N1 hf. og Festi hf. gæti gengið í gegn. Meðal skilmála sáttarinnar var að verslun, starfrækt undir merkjum Kjarvals, á Hellu yrði seld til að „efla samkeppni á Hellu, Hvolsvelli og nágrenni“.

Félagið hafði áður náð samkomulagi um sölu á versluninni en sú aðgerð mætti andstöðu leigusala en þar var á ferð sveitarfélagið sjálft. Var þá gerð tilraun til að selja verslun Krónunnar á Hvolsvelli en sú ráðstöfun mætti andstöðu sveitarfélagsins og íbúa þar. Önnur atrenna var gerð að sölu verslunarinnar á Hellu og höfðu samningar náðst.

Mikilvægt að fyrirtæki hlíti skilyrðum

„Þann 25. febrúar sl. barst Samkeppniseftirlitinu rökstutt álit óháðs kunnáttumanns samkvæmt sáttinni á hæfi kaupanda. Í álitinu komst kunnáttumaður að þeirri niðurstöðu að umræddur kaupandi uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar væru til hæfis hans samkvæmt ákvæðum sáttarinnar, um að kaupandi væri óháður Festi og ekki í neinum tengslum við félagið. Einnig léki vafi á um fjárhagslegan styrk og hvata kaupanda til þess að veita Festi umtalsvert samkeppnislegt aðhald á svæðinu líkt og sáttin áskilur. Í kjölfar rannsóknar og athugunar með tilliti til fyrirliggjandi gagna komst Samkeppniseftirlitið að efnislega sömu niðurstöðu,“ segir í frétt á vef SKE.

Í fréttinni er tekið fram að SKE árétti „að mjög brýnt [sé] að fyrirtæki hlíti skilyrðum samruna og að treysta megi því að sáttir í slíkum málum séu virtar.“ Mikilvægt sé að aðilar að samrunamálum taki skilyrði þeirra alvarlega.

„Rétt er í þessu sambandi að minna á að samrunaaðilar lögðu umrædd skilyrði til með það fyrir augum að efla samkeppni á svæðinu til hagsbóta íbúa á svæðinu og aðra notendur umræddrar þjónustu,“ segir í fréttinni. Í niðurlagi tilkynningarinnar er tekið fram að SKE hafi hafið rannsókn á því hvort Festi hafi mögulega brotið gegn skilyrðum sáttarinnar, „m.a. vegna tafa við sölu á eignum félagsins.“

Lögmaðurinn Lúðvík Bergvinsson er óháður kunnáttumaður samkvæmt sáttinni en kostnaður við störf hans rataði í umræðuna á vormánuðum síðasta árs. Á aðalfundi félagsins í fyrra kom fram að kostnaður Festi vegna starfa hans hefði numið tæplega 33 milljónum króna árið 2019.