Embætti sérstaks saksóknara yfirheyrði í gær sjö manns í gær í tengslum við rannsókn sína á starfsemi Landsbanka Íslands fyrir bankahrun. Yfirheyrslur yfir hluta hópsins standa enn yfir og óskað hefur verið eftir að tveir úr honum verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Sjömenningarnir eru eftirfarandi::

Sigurjón Þ. Árnason

Sigurjón Þ. Árnason var ráðinn bankastjóri Landsbankans í apríl 2003, skömmu eftir að Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson höfðu eignast stóran hlut í bankanum. Sigurjón hafði áður starfað hjá Búnaðarbankanum. Fjölmargir starfsmenn fylgdu Sigurjóni yfir í Landsbankann frá Búnaðarbankanum þegar hann söðlaði um. Sigurjón var bankastjóri Landsbankans við hlið Halldórs J. Kristjánssonar fram að bankahruni. Hann var af flestum talinn vera drifkrafturinn í fjárfestingabankastarfsemi Landsbankans á góðærisárunum.

Eftir bankahrun sinnti Sigurjón stundakennslu við Háskólann í Reykjavík og ráðgjafastörfum. Þá vakti töluverða athygli þegar kom í ljós að hann átti sinn eigin lífeyrissjóð sem hann lét lána sér umtalsverðar upphæðir.

Embætti sérstaks saksóknara hefur óskað eftir að gæsluvarðhaldi yfir Sigurjóni og hann hefur réttarstöðu grunaðs manns.

Ívar Guðjónsson

Ívar Guðjónsson var forstöðumaður deildar eigin viðskipta Landsbankans fyrir bankahrun. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er vitnað í skýrslutöku nefndarinnar yfir Ívari þar sem hann var spurður um kaup Landsbankans á eigin bréfum. Þar segir Ívar að pressa hefði myndast þegar framboð á hlutabréfum Landsbankans fór að aukast á markaði um að eigin viðskipta bankans keyptu meira af hlutabréfum í bankanum sjálfum. Sú pressa hefði meðal annars komið frá miðlun Landsbankans. Ívar sagði

jafnframt „[...] miðlunin var að hringja, hvað er að ykkur, djöfulsins aumingjaskapur, Kaupþing er alltaf að, þeir gleypa endalaust og ... þeir eru alltaf með kaupendur, það eru alltaf að eiga sér stað viðskipti með þeirra stock ... okkar  er bara með of lítið magn af viðskiptum.“

Embætti sérstaks saksóknara hefur óskað eftir því að Ívar sæti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar þess á málefnum Landsbankans fyrir hrun. Hann hefur réttarstöðu grunaðs manns.

Elín Sigfúsdóttir

Elín Sigfúsdóttir var forstöðumaður fyrirtækjasviðs Landsbankans fyrir hrun. Hún hafði áður gegnt sama starfi hjá Búnaðarbanka Íslands en fylgdi Sigurjóni Þ. Árnasyni yfir í Landsbankann þegar hann var ráðinn bankastjóri þess banka. Elín og Sigurjón hafa því verið mjög nánir samstarfsmenn um margra ára skeið.

Eftir að Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir Landsbankann í október 2008 var Elín ráðin sem nýr bankastjóri hins nýja Landsbanka sem reistur var á grunni þess fallna. Hún sat í þeim stól út febrúarmánuð 2009. Elín var yfirheyrð af embætti sérstaks saksóknara í gær og hefur réttarstöðu grunaðs manns.

Yngvi Örn Kristinsson

Yngvi Örn Kristinsson var yfirmaður hagfræðisviðs Landsbankans fyrir bankahrun. Hann hefur unnið mikið fyrir sitjandi ríkisstjórn að ýmsum málum. Hann starfaði upphaflega að sérverkefnum á vegum félagsmálaráðuneytisins en sótti síðan um stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs á síðasta ári. Mikill vilji var innan Samfylkingarinnar að ráða hann í starfið en ekki náðist sátt um það innan stjórnar sjóðsins. Auglýsa þurfti stöðuna tvisvar og svo fór að Sigurður Erlingsson var ráðinn í starfið. Yngvi Örn sat einnig í svokölluðum reiknihóp á vegnum stjórnvalda sem vann að lausn á skuldavanda heimilanna sem kynnt var í lok árs 2010. Hann komst einnig í fréttirnar þegar hann lýsti 230 milljóna króna kröfu í þrotabú Landsbankans. Hann sagði síðar að hann ætlaði að gefa kröfur sínar til velferðarmála ef fallist yrði á þær. Kröfunni var hafnað og Yngi ákvað að reyna ekki að sækja hana fyrir dómstólum. Hann var yfirheyrður af embætti sérstaks saksóknara í gær og hefur réttarstöðu grunaðs manns.

Steinþór Gunnarsson

Steinþór Gunnarsson var forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans fyrir bankahrun. Hann komst í kastljós fjölmiðla þegar hann lýsti því yfir að hann hefði haft frumkvæði að því að óska eftir 25 milljóna króna styrk frá Landsbanka til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006. Steinþór var yfirheyrður af embætti sérstaks saksóknara í gær. Hann hefur réttarstöðu grunaðs manns.

Júlíus Steinar Heiðarsson

Júlíus Steinar Heiðarsson starfaði hjá eigin viðskiptum Landsbankans fyrir bankahrun. Hann starfar nú hjá Horni Fjárfestingafélagi ehf., dótturfélagi Landsbankans, sem yfirtók nær allar hlutabréfaeignir í skráðum og óskráðum félögum sem fluttust frá gamla bankanum til þess nýja. Hann er eini núverandi starfsmaður bankans sem var kallaður til yfirheyrslu í gær. Júlíus Steinar hefur réttarstöðu grunaðs manns í rannsókninni.

Sindri Sveinsson

Sindri Sveinsson er fyrrum starfsmaður eigin viðskipta Landsbankans. Hann starfar ekki hjá nýja bankanum. Sindri var yfirheyrður af embætti sérstaks saksóknara í gær og hefur réttarstöðu grunaðs manns.