Rannsókn lögreglu á leka á gögnum frá Samkeppniseftirlitinu til Kastljóss á RÚV, um kæru eftirlitsins á hendur starfsmönnum skipafélaganna Eimskips og Samskipa, er langt komin. Verður málið sent til ríkissaksóknara að lokinni rannsókn. Þetta segir Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn í samtali við Viðskiptablaðið.

Greint var frá því í fréttaþættinum Kastljósi síðasta haust að ellefu starfsmenn Eimskips og Samskipa hefðu verið kærðir til sérstaks saksóknara vegna hugsanlegs brots þeirra gegn samkeppnislögum. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips og einn þeirra sem voru kærðir, sagði þá í samtali við Viðskiptablaðið að hann hefði fyrst fengið upplýsingar um kæruna í Kastljósi og engar upplýsingar hefðu borist frá sérstökum saksóknara.

Þótti þá ljóst að gögnunum hefði verið lekið frá Samkeppniseftirlitinu og hóf lögreglan rannsókn í kjölfarið. Fyrrverandi starfsmaður Samkeppniseftirlitsins er með réttarstöðu grunaðs manns í málinu.