Lögregla hefur lokið rannsókn á meintu trúnaðarbroti Gunnars Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og hyggst senda málið til Ríkissaksóknara sem tekur í framhaldinu ákvörðun um hvort forstjórinn verður ákærður. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Stjórn Fjármálaeftirlitsins sagði Gunnari upp störfum í byrjun mars og kærði hann til lögreglu, fyrir að hafa aflað sér trúnaðarupplýsinga úr Landsbankanum með ólögmætum hætti. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins lét starfsmaður Landsbankans samstarfsmenn sína safna saman gögnum um Guðlaug Þór Þórðarson þingmann. Þeir töluðu við regluvörð bankans eftir að DV fjallaði um viðskipti Guðlaugs.

Starfsmanninum var vikið ótímabundið frá störfum vegna meints leka.

Þrír menn til viðbótar hafa réttarstöðu sakbornings, þ.a.m. Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, vegna aðildar sinnar að meintum lögbrotum Gunnars, og fóru upplýsingar um meinta þátttöku þeirra í málinu sömuleiðis til Ríkissaksóknara.