Röð mistaka, sem varða flugvélaframleiðandann, flugfélagið og flugmenn, eru ástæðan þess að Boeing 737-Max flugvél flugfélagsins Lion Air hrapaði fyrir um ári síðan með þeim afleiðingum að 189 létu lífið. Þetta er niðurstaða rannsóknar indónískra flugmálayfirvalda á flugslysinu og greint er frá á fréttavef BBC .

Í skýrslu rannsakenda eru níu atriði tiltekin sem voru í ólagi og áttu hlut í flugslysinu og tekið fram að ef eitt þessara atriða hefði verið í lagi sé ekki víst að slysið hefði átt sér stað.

Telur rannsóknarnefndin að vélin hefði átt að hafa verið kyrrsett vegna vandræða sem upp höfðu komið í stjórntækjum fyrir slysið. Sökum þess að ekki hafði verið tilkynnt um vandræðin eins og reglur kveða á um hafi vélin tekið á loft.

Hinn margumræddi MCAS skynjari, sem átti að koma í veg fyrir að vélin gæti ofrisið, er í skýrslunni sagður hafa ítrekað stefnt nefi vélarinnar niður á við og tekið stjórnina af flugmönnunum. MCAS skynjarinn hefur verið aðalefni rannsókna á bæði á flugslysunum tveimur og flugvélaframleiðandanum Boeing.

Þá segir skýrslan að flugmaðurinn sem hafi verið við stjórnvölinn þegar vélin tók hina örlagaríku dýfu hafi hvorki kunnað nægileg skil á vélinni né þeim verkferlum sem til staðar voru. Þá finna skýrsluhöfundar að því að 31 blaðsíða hafi vantað í viðhaldsbókhald vélarinnar.