„Stjórn sparisjóðsins vill ítreka að skoðun embættis sérstaks saksóknara hefur engin áhrif á almenna starfsemi eða viðskiptavini Byrs sparisjóðs. Ennfremur hefur stjórn Byrs sparisjóðs farið þess á leit við starfsfólk Byrs að það sýni embætti sérstaks saksóknara fullan samstarfsvilja og veiti því allar þær upplýsingar sem embættið kann að óska eftir,“ segir í yfirlýsingu sem Jón Kr. Sólnes sendir fjölmiðlum fyrir hönd stjórnar Byrs.

„Embætti sérstaks saksóknara gerði í dag húsleit í höfuðstöðvum Byrs sparisjóðs í Borgartúni 18.  Tilefni húsleitar er skoðun embættisins á málefnum Exeter Holdings, einkahlutafélags sem keypti stofnbréf í Byr með láni frá sparisjóðnum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Það er léttir fyrir starfsfólk og stjórn að málið sé í farvegi og vonast þau til að óvissu um málefni Exeter Holdings ljúki sem fyrst.  Samstarf starfsfólks við embættið hefur verið afar gott í dag,“ segir Jón Kr. Sólnes.