Hafrannsóknastofnun stóð í fyrsta sinn fyrir merkingum á leturhumar með hljóðmerkjum í leiðangri á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni á veiðislóð í Jökuldýpi í síðasta mánuði.

Tilraunin er liður í því að varpa ljósi á atferli tegundarinnar, segir Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur sem var leiðangursstjóri en humar dvelur langdvölum í holum eða göngum sem hann grefur ofan í botnleirinn. Atferlið ræður öllu varðandi veiðanleika humarsins en aflabrögðin sveiflast mjög eftir tíma sólarhringsins, birtu og dýpi en að jafnaði er veiðin best þegar þörungablóminn stendur hvað hæst á vorin.

Önnur rannsókn, heldur smærri í sniðum, var framkvæmd úti fyrir Barcelona í fyrra. Það var fyrsta rannsóknin af þessu tagi sem gerð hefur verið á humri.

„Við vorum í raun að endurtaka þessa rannsókn í samstarfi með þeim en á okkar hafsvæði og á okkar dýrum sem eru mun stærri en þau sem eru í Miðjarðarhafinu. Tilraunin var gerð á tveimur svæðum í Jökuldýpinu, annars vegar á 115 metra dýpi og hins vegar 195 metrum. Rannsókn af þessu tagi er mikil nýlunda hérlendis,“ segir Jónas.

Hlustunardufl og myndavélar

Valið var að gera þessa rannsókn í Jökuldýpi ekki síst vegna þess að humarveiðar hafa verið bannaðar á svæðinu í um tvö ár eins og í Lónsdýpi. Humarinn hefur því fengið góðan frið fyrir veiðum og þau svæði voru valin þar sem þéttleiki humarhola er hvað mestur.

Níu hlustunardufl voru sett út á hvorum stað, þrjú í röð í þremur röðum með 100 metra millibili þar sem humarinn var fangaður. Veiðarnar fóru fram að næturlagi og gengu vel. Vandlega var gætt að að því notast eingöngu við rauð ljós yst á litrófinu við merkinguna til þess að verja sjón dýranna. Lítið merki var límt á skjöld hvers humars og hann síðan látinn síga aftur niður á botn í lítilli tunnu. Ofan við tunnuna var sérhönnuð grind með áfastri myndavél sem fylgdist með þegar dýrið losnaði úr tunnunni og sveif niður á botninn.

Brellnar humarveiðar

Jónas segir að það taki dýrin dálítinn tíma að ná fótfestu á ný á leirbotninum og finna sér holu eftir að þeim hefur verið sleppt. Hljóðmerki berast til hlustunarduflanna á 30-50 sekúndna fresti. Þegar þrjú dufl hafa numið merki frá sama dýri hefur staðsetning þess verið staðfest. Til hliðar við hlustunarduflin voru settar niður straumsjár sem sýna straumana á hverjum tíma sem gefur kost á að tengja atferli humarsins straumana hverju sinni.

„Þeir þekkja það sem hafa verið á humarveiðum að stundum er nánast engin veiði en svo getur veiðin blossað upp þegar aðstæður breytast, t.d. þegar fallið hefur breyst, fiskur hefur gengið yfir svæðið og þegar sjórinn verður dekkri vegna gróðurs. Einnig getur einungis veiðst í húmi eða yfir blánóttina. Með þessari rannsókn erum við að reyna að skilja betur atferli humarsins. Það hefur verið dálítil ráðgáta hversu langan tíma hvert dýr er frá holu sinni. Humarveiðar eru með þeim brellnustu því humarinn getur á augabragði horfið ofan í holur og veiði dottið niður. Rannsóknin opnar því nýjan heim og niðurstöðurnar gætu hugsanlega aðstoðað okkur við veiðistjórnun og einfaldlega verið fróðlegar fyrir humarveiðimenn,  skipstjóra og almenning,“ segir Jónas.

Um 500 milljónir

Hafrannsóknarstofnun hefur talið humarholur síðastliðin fimm ár á þekktum humarveiðislóðum. Talið hefur verið á 80-100 stöðvum. Niðurstaðan er sú að humarholurnar eru nálægt um 500 milljónir talsins árið 2019 og hafði þeim fækkað frá um 600 milljón holum árin 2016-2017.  Von er á niðurstöðum úr talningum sumarsins síðar í haust.

„Ástæðan fyrir því að við teljum humarholur er sú að hefðbundið togararall með vörpu eða öðru veiðarfæri hentar ekki til að leggja mat á stofnstærð tegundar sem er jafn misveiðin og humar. Með hefðbundnu ralli getur vísitalan á einstaka bleiðu rokið upp og á næsta ári getur hún dottið niður í nánast ekki neitt. Við vitum að humar lifir í 15-20 ár og þess vegna ættu sveiflurnar í stofnstærð að vera hægfara,“ segir Jónas.

Allflestar þjóðir sem stunda humarveiðar að einhverju gagni hafa talið humarholur á sínum veiðisvæðum í tilraun til að leggja mat á lífmassann. Talningar af þessu tagi hafa til dæmis farið fram í um nærri 30 ára skeið við Skotland. Þannig er einfaldlega fylgst með stofninum með því að telja hversu margar humarholurnar eru. Í hverri holu er talið vera eitt dýr.

Mælingar í krísu

„Humar er afar háður réttu búsvæði. Botnleirinn þarf að vera mjög fínn til þess að humar setjist að og geri sér holu. Við höfum tekið setsýni í lok hverrar upptöku á sleðanum með botngreip. Eftir því sem meira er af sandkornum í leirnum því meira jaðarsvæði er um að ræða fyrir humarinn. Úti fyrir Suðausturlandi er botnsetið í raun gamlar leifar frá skriðjöklum. Vatnajökull hefur þarna plægt botninn og skilið eftir sig jökulleir sem er kjörsvæði fyrir humar,“ segir Jónas.

Samkvæmt humarholutalningunni eru um 500 milljónir humra á humarveiðislóðum umhverfis landið. Meðalþyngd karldýrs er vel yfir 100 grömm. Væri því eingöngu um karldýr að ræða væri lífmassi stofnsins um 50 þúsund tonn. Kvendýrin eru hins mun smærri og þess vegna er erfitt að leggja mat á lífmassann út frá holutalningum.

90-95% humaraflans er karldýr. Ástæðan er sú að kvendýrið dvelur í holunni þegar hún hefur hrygnt. Hún verndar og þroskar eggin í hátt í eitt ár og er þá lítið utan holunnar. Vegna þess hve langan tíma það tekur eggin að klekjast út hrygna kvendýrin að jafnaði einungis annað hvert ár hér við land.  Bakskjöldur stórs kvendýrs er að jafnaði 40-45 millimetrar en bakskjöldur stórs karldýrs um 70 millimetrar.

Jónas segir að hjá öðrum humarveiðiþjóðum sé hlutfall kynjanna í aflanum mun jafnara. Yfirleitt sé hlutfall karldýra einungis lítið eitt meira en kvendýra í afla meðan það er, sem fyrr segir, 90-95% hér við land.

„Við hefjum því miður þessar mælingar þegar stofninn hefur náð nýrri lægð í stofnstærð sökum nýliðunarbrests. Undanfarin tvö ár höfum við verið með takmarkaðar könnunarveiðar, til að fylgjast með aflabrögðum og stærðarsamsetningunni. Því miður höfum við ekki séð nýliðunarpúls koma inn og veiðarnar hafa verið frekar dræmar.“