Rannsókn á kaupum nær helmingshlut í Búnaðarbankanum frestast fram yfir áramót. Ástæðan er sú að Ólafur Ólafsson og Guðmundur Hjaltason, neita að mæta fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Ólafur Ólafsson var fyrrum stjórnarformaður Eglu og Guðmundur Hjaltason var fyrrum framkvæmdastjóri félagsins. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins .

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari hefur verið fengin til þess að rannsaka aðkomu þýska bankans Hauck og Aufäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum. Þegar bankinn var einkavæddur var bankinn hluti af kaupendahópnum þegar S-hópurinn svokallaði eignaðist meirihluta í bankanum snemma á þessari öld.

Efasemdir hafa vaknað um hlutverk bankans og aðkomu erlendra aðila að kaupunum. Hins vegar hefur það aldrei verið sannað að ekki hafi allt verið með réttu. Tryggi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, fékk nýjar upplýsingar sem talið er að hafi veitt frekari innsýn í þátttöku bankans í kaupunum. Því var málið tekið til rannsóknar.

Rannsókn á sölu Búnaðarbankans er byggð á lögum um rannsóknarnefndir Alþingis. Bæði Guðmundur og Ólafur vildu að dómari málsins véki í málinu og vildu ekki koma fyrir nefndina. Jafnframt neitaði ónafngreindur aðili að koma fyrir nefndina.

Lagt er til að rannsókn málsins ljúki sem verða má, en þó er tekin út vísun í næstu áramót í nýrri tillögu forsætisnefndar til þingsályktunar. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að látið yrði reyna á umboð og heimildir nefndarinnar fyrir dómstólum.

Grunsemdir vöknuðu um erlenda viðskiptafélaga

Ekki er það einsdæmi í ferli Ólafs Ólafssonar þar sem að grunsemdir hafa vaknað um raunverulega aðkomu erlendra fjárfesta. Þýski bankinn sem kom að kaupum á Búnaðarbankanum var eitt af þremur slíkum dæmum.

Hin tvö dæmin eru annars vegar Al-Thani málið svokallaða, þar sem að Ólur og æðstu stjórnendur Kaupþings voru dæmdir fyrir markaðsmisnotkun. Hins vegar var það aðkoma þýska skipafélagsins Bruno Bishoff sem kom að Samskipum.