Það er ekki bara hérlendis sem bókhaldsóreiða stórfyrirtækja er í sviðsljósinu. Aðkoma endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte að gjaldþroti breska bílaframleiðandans MG Rover er nú til skoðunar hjá eftirlitsaðilum, eftir því sem kemur fram í Financial Times.

Eftirlitsaðilinn, Rannsóknar- og aganefnd endurskoðenda, segist ætla einbeita sér að nýjustu bókhaldsgögnum og ráðgjöf sem fyrirtækið veitti bílaframleiðandanum. Gjaldþrot Rover er einnig til skoðunar hjá sjálfstæðum aðilum sem skipaðir hafa verið af viðskiptaráðuneyti Bretlands. Rannsóknin er mikið áfall fyrir Deloitte, sem liggur nú þegar undir ámæli vegna níu ára gamalla synda við endurskoðun Capital Corp., sem á þeim tíma rak spilavíti.

Martin Scicluna, stjórnarformaður Deloitte í Bretlandi, mun þurfa að koma fyrir rannsóknarnefnd vegna ásakanna um svik við endurskoðun bókhaldsgagna Capital Corp. Nefndin getur krafist ótakmarkaðra sektagreiðslna og svipt einstaklinga leyfi til endurskoðunar.

Forsvarsmenn Deloitte hafa sagt sér til varnar að ekkert væri því til sönnunar að fyrirtækið hefði gert nokkuð rangt og segja rannsóknina eingöngu byggða á því að um áberandi gjaldþrot stórfyrirtækis hafi verið að ræða. Við gjaldþrot Rovers í apríl skuldaði fyrirtækið meir en 1,4 milljarða punda (160 milljarðar króna) en eignir félagsins hafa síðan verið seldar kínverska bílaframleiðandanum Nanjing Automobile.