„Hæstiréttur staðfesti nýlega dóm fjölskipaðs héraðsdóms þar sem felld var úr gildi stjórnvaldssekt Fjármálaeftirlitsins á hendur EA fjárfestingarfélagi (áður MP banka hf.) fyrir brot á reglum um stórar áhættuskuldbindingar (mál 593/2011). Dómurinn er athyglisverður þvi hann sýnir að Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA) var á villigötum í umfjöllun sinni um stórar áhættuskuldbindingar.“

Þetta segir Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir orðið „tengsl“ oft hafa komið til umræðu eftir hrunið en vantað hafi æskilega nákvæmni. Þar sem umræðan snúi oft að reglum um stórar áhættuskuldbindingar fer Jónas í grein sinni yfir helstu atriði þeirra.

Meðal þess sem fram kemur í máli Jónasar er að RNA hafi verið á villigötum við túlkun hugtaksins „yfirráð“. Yfirráð skipti lykilmáli þegar fjallað sé um hverjir teljist tengdir viðskiptamenn og því mikilvægt að skilgreiningar séu réttar.

„Í skýrslu RNA var gefið í skyn að hugtakið „yfirráð“ ætti að túlka víðtækt. Var haldið fram að fella mætti samstarf þar undir og var sérstaklega vísað til reglna verðbréfaviðskiptalaga um yfirtökuskyldu. Slík nálgun stenst ekki af mörgum ástæðum, t.d. eru báðar reglurnar íþyngjandi sérreglur og verndarandlag þeirra ekki hið sama. Af niðurstöðu dómstóla er ljóst að RNA var á villigötum. Þannig segir orðrétt í héraðsdómi að „ekki sé unnt að leggja til grundvallar skilgreiningu 5. tölul. 3. mgr. 100. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti um yfirráð í skilningi a-liðar 2. gr. reglna nr. 216/2007,““ segir í grein Jónasar. Hann segir RNA hafa lítið gefið fyrir sjónarmið um vandaða málsmeðferð.

Þá bendir Jónas á að nú, tæpum 44 mánuðum frá setningu neyðarlaga, 40 mánuðum eftir að sérstakur saksóknari tók til starfa og 26 mánuðum eftir skýrslu RNA hafi ekkert heyrst af ákærum eða stjórnvaldssektum vegna brota á reglum um stórar áhættuskuldbindingar í gömlu viðskiptabönkunum. Þannig segir Jónas RNA hafa haft rangt fyrir sér þegar mál voru sögð augljós og tæk til viðurlagabeitingar. Umfjöllun RNA um áhættuskuldbindingar og tengsl hafi verið byggð á skilgreiningum á yfirráðum sem ekki voru í samræmi við lagalegan veruleika.