Rannsóknarnefnd á vegum bandarískra stjórnvalda segir að mögulegt hafi verið að koma í veg fyrir efnahagskrísu. Nefndin hafði það hlutverk að rannsaka orsakir hennar.

Í skýrslu sem gefin var út í dag eru helstu ástæður sagðar of mikil áhætta bankanna og vanræksla af hálfu eftirlitsaðila. „Efnahagskrísan var tilkomin vegna mannlegrar hegðunar, ekki vegna Móður náttúru eða vegna þess að líkön virkuðu ekki sem skyldi,“ segir í skýrslunni.

Nefndin var skipuð í maí 2009 og kemur fram í frétt BBC að ekki var einhugur um niðurstöðurnar sem kynntar eru í skýrslunni. Einungis sex af tíu manna nefnd kvittuðu undir, allt Demókratar.