Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra.

Þetta segir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis undir liðnum Ágrip um meginniðurstöður skýrslunnar.

Rannsóknarnefndin segir að hvorki á því ári (2006) né því næsta hefðu stjórnvöld lagt með afgerandi hætti að bönkunum að minnka efnahagsreikning sinn. Þau hafi heldur ekki beitt sér fyrir því að einn eða fleiri af stóru bönkunum þremur flytti höfuðstöðvar sínar úr landi.

„Þvert á móti var það stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar samkvæmt stjórnarsáttmála frá 23. maí 2007 að tryggja að fjármálastarfsemi gæti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði,“ segir í skýrslunni.

„Það var einnig stefna ríkisstjórnarinnar að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.“