„Í ljósi þeirra gríðarlegu miklu fjármuna og áhrifa sem fjárfestingarleiðin hefur haft á íslenskt efnahagslíf er að mati flutningsmanna réttast að óháður aðili fjalli um framkvæmd útboðanna frekar en sá aðili sem rannsóknin mun snúa að.“

Þetta er meðal þess sem segir í greinargerð með þingsályktunartillögu sem allir þingmenn Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar hafa lagt fram um að þriggja manna rannsóknarnefnd verði skipuð af forseta Alþingis til að rannsaka fjárfestingarleið Seðlabankans.

Markmið rannsóknarnefndarinnar er að leggja mat á hvernig til hafi tekist þegar fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var komið á fót, m.a. framkvæmd hennar og efnahagsleg áhrif. Meðal þess sem rannsókninni er ætlað að gera grein fyrir er hvaðan fjármagnið sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni kom. Hvaða einstaklingar voru skráðir fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins eða hvaða félög og eignarhaldi þeirra. Hvernig fénu sem fært var inn til landsins var varið, þ.e. til hvaða fjárfestinga það var notað og hvaða áhrif þær fjárfestingar hafa haft á íslenskt efnahagslíf. Hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna þessa og þá hversu mikið tapið var. Hvort fjárfestingarleiðin kunni að hafa verið notuð til að koma óskráðum og óskattlögðum eignum Íslendinga á aflandssvæðum aftur til landsins, til að stunda peningaþvætti eða misnotuð með öðrum hætti.

Samkvæmt frumvarpinu á nefndin að skila niðurstöðum sínum í skýrsluformi eigi síðar en 1. október 2020.