„Þetta verður núna í mánuðinum. Það er ekki komin nákvæmari dagsetning ennþá. Ég geri ráð fyrir því að það séu svona tvær til þrjár vikur eftir,“ segir Sigurður Hallur Stefánsson, formaður rannsóknarnefndar Íbúðalánasjóðs, í viðtali við Morgunblaðið í dag um hvenær megi búast við að skýrsla nefndarinnar verði kynnt. Nefndin var stofnuð fyrir hálfu þriðja ári.

Þá segir Hrannar Már Hafberg, formaður rannsóknarnefndar um fall sparisjóðanna, í Morgunblaðinu að einnig sé von á skýrslu frá þeim í júní.

Staða Íbúðalánasjóðs er áhyggjuefni að mati Fjármálaeftirlitsins, en eiginfjárhlutfall sjóðsins hefur farið lækkandi á undanförnum misserum og býr hann við verulega uppgreiðsluáhættu, einkum í núverandi vaxtaumhverfi. Kemur þetta fram í ársskýrslu FME sem kynnt var á ársfundi FME í lok mars og sagt var frá á vb.is .