Ráðgert er að rannsóknarnefndir Alþingis fái 130 milljóna króna framlag samkvæmt fjáraukalögum sem tekin voru til fyrstu umræðu á Alþingi í gær.

Nefnd um rannsókn á Íbúðalánasjóði og nefnd um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna voru skipaðar síðsumars 2011. Báðum var upphaflega ætlað að skila niðurstöðum á árinu 2012, í mars annars vegar og júní hins vegar, en umfang og útgjöld vegna starfsemi þeirra voru frá upphafi vanáætluð. Nefnd um Íbúðalánasjóð lauk störfum í júlí 2013 og nefnd um sparisjóðina lauk störfum í apríl 2014.

Vegna mikillar óvissu um hvort og þá hve mikil fjárþörf yrði á árinu 2014 var ákveðið að bíða átekta við fjárlagagerð ársins 2014 og var því ekki farið fram á fjárveitingu í þeim. Nú liggur hins vegar fyrir að kostnaður við starf nefndanna í ár til loka ágústmánaðar var 115 milljónir króna, þar af 6,8 milljónir vegna nefndar um Íbúðalánasjóð en 108,2 milljónir vegna nefndar um sparisjóðina. Er auk þess gert ráð fyrir 5 milljóna króna svigrúmi vegna viðbótarútgjalda.

Heildarkostnaður frá upphafi við starfsemi beggja nefnda stefnir í 930 milljónir króna. Þar af eru 250 milljónir vegna nefndar um Íbúðalánasjóð og 680 milljónir vegna nefndar um sparisjóðina.