Rannsóknarnefndir Alþingis sem rannsaka munu starfsemi Íbúðalánasjóðs annars vegar og falla sparisjóðakerfisins hins vegar hafa nær algjörlega frjálsar hendur um hvernig rannsóknunum verður háttað. Lög um rannsóknarnefndir þingsins gera ráð fyrir að nefndirnar sjálfar meti hvort tilefni sé til þess að afnema bankaleynd eða greina frá tilteknum upplýsingum sem rannsóknir nefndanna leiddu í ljós. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem rannsóknarnefndirnar héldu í húsnæði Landlæknisembættisins á Seltjarnarnesi en þar verða rannsóknarnefndirnar með vinnuaðstöðu.

Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við rannsóknirnar geti numið 100 til 200 milljónum króna. Ljóst er þó að kostnaðurinn verður bundinn við hversu mikið umfang rannsóknanna verður.

Í rannsóknarnefndinni sem rannsaka mun fall sparisjóðakerfisins verða Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari, formaður, Tinna Finnbogadóttir hagfræðingur og Bjarni Fr. Karlsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í nefndinni sem rannsaka mun starfsemi Íbúðalánasjóðs verður Sigurður Hallur Stefánsson, fv. héraðsdómari, formaður. Með honum í nefndinni eru Kristín Flygenring hagfræðingur og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.

Gert er ráð fyrir að nefndirnar muni skila niðurstöðum sínum innan árs, í tilfelli nefndarinnar um falla sparisjóðakerfisins, og síðan innan hálfs árs í tilfelli ÍLS-nefndarinnar.

Guðrún Aradóttir viðskiptafræðingur hefur verið ráðin til þess að liðsinna nefndunum í störfum sínum.