Áætlaður kostnaður við þrjár rannsóknarnefndir Alþingis um fall bankanna, um Íbúðalánasjóð og um sparisjóðina er samtals um 1.063 milljónir króna. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag. Útgjöld vegna rannsóknarnefndar um fall bankanna námu 434,4 milljónum króna samkvæmt fjárlögum áranna 2008-2010 en útgjöld vegna annarra rannsóknarnefnda námu 481 milljónum á árunum 2011-2013.

Allar nefndirnar hafa farið yfir tilskilinn skilafrest. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir í samtali við Morgunblaðið að hann teli óhjákvæmilegt að Alþingi endurskoði þá löggjöf sem sett var á sínum tíma um rannsóknarnefndir. Afmarka þurfi betur það viðfangsefni sem á að rannsaka hverju sinni, svo hægt sé að gera raunhæfar tíma- og kostnaðaráætlanir.