Gert er ráð fyrir að jólaverslunin í ár verði sambærileg við það sem hún var í fyrra að magni til.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar um jólaverslun.

Þar segir að þau áföll sem hafa orðið í íslensku efnahagslífi hafi áhrif á jólaverslunina. Í september síðastliðnum hafði kaupmáttur launa lækkað um 8% á einu ári og horfur í atvinnumálum séu enn óvissar en væntingar landsmanna hafi hins vegar glæðst lítillega.

„Eftir stöðugan samdrátt í verslun hérlendis undanfarin misseri fer nú hugsanlega að nást meiri stöðugleiki,“ segir í skýrslunni.

Rannsóknasetur verslunarinnar spáir því að jólaverslunin verði svipuð að raunvirði og hún var fyrir ári síðan. Þessi spá byggir aðallega á þróun veltu í smásöluverslun fyrri hluta þessa árs. Þá er einnig tekið tillit til þróunar greiðslukortaveltu, væntinga stjórnenda í verslun og fleiri þátta sem raktir eru hér að neðan. Rannsóknasetur verslunarinnar áætlar að jólaverslunin verði óbreytt frá fyrra ári að raunvirði. Jafnframt að velta aukist um 8% að nafnvirði.

Þá kemur fram að áhrif efnahagskreppunnar hafi rækilega komið fram í jólaverslun á síðasta ári. Samdráttur jólaverslunarinnar í fyrra nam 18,3% frá árinu þar á undan að raunvirði. Árin þar áður hafði verið árleg aukning í jólaverslun að jafnaði um 7,3%, þannig að samdrátturinn í jólaverslun í fyrra var óvenju mikill.

Meðal þeirra þátta sem draga úr væntingum til aukinnar jólaverslunar að mati Rannsóknarseturs eru eftirtaldir:

Kaupmáttur hefur minnkað síðan í fyrra, enn ríkir óvissa í atvinnumálum,  niðurskurður hins opinbera og skattahækkanir og loks hefur greiðslukortavelta dregist saman.

Þá segir Rannsóknarsetur að þættirnir sem hafa jákvæð áhrif á jólaversluninni eru eftirtaldir:  Íslenskar vörur eru samkeppnishæfari gagnvart vöruframboði erlendis frá, t.d. gagnvart erlendum netverslunum, dregið hafi úr verslunarferðum Íslendinga til annarra landa, vææntingarvísitala Gallup hafi hækkað undanfarið og loks hafi verðbólga hjaðnað og verðbólguhorfur séu betri.

Sjá skýrsluna í heild sinni hér (pdf skjal)