Velta í dagvöruverslun dróst saman um 4,3% á föstu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 13,3% á breytilegu verðlagi.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu dagvöruverslana í september 4,4% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 18,4% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Þetta kemur fram í mánaðarlegri smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst. Þar segir að samdrátturinn komi helst fram í minni kaupum á dýrum og varanlegum vörutegundum. Þannig sé mesti samdrátturinn á milli ára í húsgagnaverslun og raftækjaverslun eins og undanfarna mánuði.

Þá kemur einnig fram að verslun með dagvöru og áfengi í september hafi verið minni að magni til bæði miðað við sama mánuði í fyrra og árið þar áður.

„Líklega hafa hækkanir á vörugjöldum og áfengisgjaldi einhver áhrif til samdráttar á sölu þessara vörutegunda auk verðáhrifa vegna veikingar krónunnar,“ segir í skýrslu Rannsóknarseturs.

Sjá nánar skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar.