Rannsóknarsjóður Viðskiptaráðs veitti í hádeginu í fyrsta sinn styrki. Sjóðurinn veitti alls 6,5 milljónir króna til verkefna sem valnefnd sjóðsins telur að geti bætt samkeppnishæfni Íslands „með því að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtast íslensku menntakerfi og atvinnulífi," að því er segir í tilkynningu.

Hæsta styrkinn hlaut Alþjóðaskólinn, eða 2,5 milljónir króna. Styrknum er ætlað að aðstoða skólann við að koma á fót námsframboði fyrir áttunda til tíunda bekk grunnskóla. „Þannig er stefnt að því að brúa bil í alþjóðlegu námsframboði hérlendis en slíkt nám hefur ekki verið í boði fyrir þennan aldurshóp. Framboð alþjóðlegs náms á öllum skólastigum styrkir stöðu Íslands í samkeppni um menntað alþjóðlegt vinnuafl." Alþjóðaskólinn er grunnskóli sem kennir á ensku. Börn útlendinga sem hafa tímabundna viðkomu á landinu, eins og sendiherrar og sérfræðingar sem starfa fyrir íslensk fyrirtæki, sækja gjarnan skólann. Börnin læra meðal annars íslensku.

Þá hlaut Gylfi Ólafsson styrk til útgáfu bókarinnar Hagnýt heilsuhagfræði. „Sérstök áhersla verður lögð á hagkvæmnismat sem notað er til að bera saman kostnað og ávinning einstakra meðferða eða inngripa. Bókinni er jafnframt ætlað að kynna fræðigreinina og stuðla að upplýstari umræðu um heilbrigðismál á Íslandi," segir um bókina í tilkynningu. Styrkurinn nemur 1,5 milljón króna.

Jafnháan styrk fékk Þröstur Olaf Sigurjónsson. „Þröstur hlýtur styrk til rannsóknar á stjórnarháttum fyrirtækja sem miðar að því að skoða valferli, fjölbreytileika stjórna og samsetningu stjórnarmanna hérlendis. Niðurstöður rannsóknarinnar munu styrkja þekkingu innan háskólasamfélagsins á sviði góðra stjórnarhátta. Auk þess felst í henni mögulegt tækifæri til að bæta fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum í íslenskum fyrirtækjum," segir um styrkveitinguna.

Þá hlaut Birna Dröfn Birgisdóttir einnar milljónar krónu styrk til rannsóknar á þáttum sem geta ýtt undir sköpunargleði starfsfólks á vinnustöðum, „en sköpunargleði er talin mikilvægur þáttur fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja. Markmið rannsóknarverkefnisins er að fylla bil þar sem samband þjónandi forystu, starfsumhverfis og sköpunargleði hefur ekki áður verið rannsakað með þessum hætti," segir um verkefnið.

Eggert Benedikt Guðmundsson, Gísli Hjálmtýsson og Ragnhildur Geirsdóttir skipa valnefnd rannsóknarsjóðsins.