Í skýrslu rannsóknarnefnd Alþingis er farið ítarlega yfir hina meintu óeðlilegu flutninga Kaupþings á fjármagni til Íslands. Þar segir að það hafi aðallega verið tvö atriði sem mestu réðu um örlög Kaupthing Singer&Friedlander (KSF). Í fyrsta lagi gat móðurfélagið Kaupþing ekki staðið við lausafjárskiptasamninga upp á 1,1 milljarð punda sem gerðir höfðu verið í mars 2008. Í öðru lagi höfðu endurhverf viðskipti milli Kaupþings og KSF aukist frá því í ágúst 2008 og „eftir því sem erfiðleika jukust á mörkuðum varð KSF örðugra að velta þeim samningum áfram út markaði [...]Þessu til viðbótar hafi KSF ekki krafið Kaupþing um veðköll vegna verðlækkunar á verðbréfum og taldi FSA þau nema um 500 milljónum punda.[...] FSA taldi KSF því vanta samtals 1,6 milljarða punda í lausafé“.

200 milljarða samningur ekki skriflegur

Nefndin dregur síðan þá ályktun að „rökrétt hefði verið að hálfu KSF að framkvæma fyrrgreind veðköll gagnvart Kaupþingi í stað þess að taka algjörlega á sig þann kostnað og áhættu sem hlaust af lækkandi verði umræddra verðbréfa.  Verður ekki annað sé en að hér hafi samband fyrirtækjanna tveggja sem móður- og dótturfélags leitt til þess að viðskipti þeirra í milli hafi ekki verið rekin á grundvelli armslengdarsjónarmiða. Rannsóknarnefnd Alþingis gerir því ekki athugasemd við þá afstöðu breskra yfirvalda að KSF hafi vanrækt að framkvæma veðköll sem námu 500 milljónum punda gagnvart Kaupþingi“.

Í ályktun hennar segir ennfremur að „ekki kemur á óvart að FSA skuli hafa álitið lausafjárskiptasamning KSF og Kaupþings haldlítinn þegar ljóst var orðið að Kaupþing gat ekki staðið við hann. Ekki er þó síður athyglisvert að skriflegur samningur virðist ekki hafa verið gerður um þessi lausafjárskipti, sérstaklega í ljósi þeirra upphæða sem um var að ræða“.

Sigurður Einarsson segir engan rannsaka dylgjur

Sigurður Einarsson segir í innsendri grein í Fréttablaðinu í dag að Alistair Darling hafi, í viðtali við RÚV í síðustu viku,  verið leift að „ að klifa á sinni gömlu lygamöntru um óeðlilega flutninga fjármagns til Íslands. Vafalaust átti þessi skáldskapur Darling stóran þátt í því að Bretar ákváðu að fella Kaupthing Singer Friedländer á sama tíma og þeir komu fjölmörgum öðrum breskum og mun verr stöddum bönkum til hjálpar. Sú mismunun er mér enn óskiljanleg – og sömuleiðis sú ákvörðun Breta að beita hryðjuverkalögum á Lands- og Seðlabankann með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið. Um þetta hirti hin sérfróða fréttakona RÚV ekki að spyrja enda þótt sjálfur fjármálaráðherra Breta á þessum tíma sæti fyrir framan hana. Hún bugtaði sig og beygði í lotningu fyrir viðmælanda sínum og leyfði honum að nota sig sem krana fyrir eldgamla og úrelta lygasögu. Sigrúnu var sama um sannleikann. Ríkisútvarpinu líka. Og öðrum fjölmiðlum. Hvergi er risið upp til að rannsaka eða mótmæla þessum rakalausu dylgjum.”

Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis má nálgast hér .

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.