„Rannsóknarnefnd Alþingis vinnur nú að lokafrágangi á skýrslu nefndarinnar um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Fyrir liggur að ekki næst að ganga frá öllum bindum skýrslunnar fyrir páska. Skýrslan mun því verða afhent og birt á fyrsta starfsdegi Alþingis eftir páska, 12. apríl næstkomandi," segir í tilkynningu frá rannsóknarnefndinni.

Skýrslan er rúmlega 2000 blaðsíður að lengd og verður gefin út í níu bindum. Í fyrstu sjö bindum skýrslunnar er fjallað um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Áttunda bindi hefur að geyma skýrslu vinnuhóps sem hafði það hlutverk að svara því hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Í níunda bindi eru birtir valdir viðaukar við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Með netútgáfu skýrslunnar fylgja fleiri viðaukar.