Sem kunnugt er mun Rannsóknarnefnd Alþingis birta og kynna langþráða skýrslu sína í dag. Nefndin var sett á fót af forsætisnefnd Alþingis etir hrun bankanna haustið 2008.

Páll Hreinsson, hæstaréttardómari og formaður nefndarinnar, mun afhenda forseta Alþingis skýrsluna kl. 10 í efrideildarsalnum í Alþingishúsinu í dag. Þar verða viðstaddir varaforsetar þingsins og formenn þingflokka.

Þegar forseta Alþingis hefur verið afhent prentað eintak af skýrslu rannsóknarnefndarinnar mun þingforseti opna fyrir aðgang að skýrslunni á vef Alþingis. Vefútgáfan verður aðgengileg kl. 10.20.

Í tilkynningu frá nefndinni fyrir helgi kemur fram að vefútgáfu skýrslunnar sé ætlað að vera aðalútgáfa skýrslunnar enda birtist þar efni sem ekki er í hinni prentuðu útgáfu, m.a.  ensk þýðing á hluta skýrslunnar, tölfræðilegt efni og bréfaskipti nefndarinnar og 12 einstaklinga sem veittur var andmælaréttur um atriði sem fram koma í skýrslunni.

Rannsóknarnefndin mun síðan halda blaðamannafund í Iðnó mánudaginn kl. 10.30. Kynntar verða niðurstöður  nefndarinnar um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Einnig verður gerð grein fyrir skýrslu vinnuhóps sem hafði það hlutverk að svara því hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði.

Þá hefst þingfundur kl. 15 í dag þar sem formenn stjórnmálaflokkanna munu gefa yfirlýsingar í tilefni af birtingu skýrslunnar.

Almenn umræða um skýrsluna hefst svo á þingfundi á morgun, þriðjudag, kl. 13:30.