Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir Íslendinga hafa getað haft áhrif á stærð og umfang bankahrunsins og því sé ekki hægt að tala um óviðráðanlegar aðstæður. Máli sínu til stuðnings er vísað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsök og fall bankakerfisins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð framkvæmdastjórnarinnar í Icesave-málinu, sem greint er frá í Fréttablaðinu í dag. Þar er tekið undir sjónarmið Eftirlitsstofnunar EFTA en rökstuðningi Íslendinga hafnað um að óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða. Munnlegur málflutningur í málinu fer fram 18. september næstkomandi fyrir EFTA-dómstólnum.