Rannsóknarnefnd sem var falið að semja skýrslu um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna mun skila forseta Alþingis skýrslu innan mánaðar. Þetta kemur fram í svari Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.

Þingsályktun um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna var samþykkt í júní 2011. Þar var gert ráð fyrir að nefndin skilaði Alþingi skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 1. júní 2012. Nefndin tók til starfa 27. september 2011 og hefur því verið að störfum í tæp tvö og hálft ár.

Í svari forseta segir að eftir að nefndin hóf störf hafi komið skýrt í ljós að sú verkefnaskrá sem hafði falist í ályktun Alþingis hafi verið miklu umfangsmeiri, flóknari og tímafrekari en talið hafði verið í upphafi og krafist mikillar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu.