Ákveðið hefur verið að stofna Rannsóknasetur verslunarinnar nú í haust að frumkvæði SVÞ. Rannsóknasetrið verður starfrækt við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Það mun sjá verslun á Íslandi fyrir hagnýtum upplýsingum sem fyrirtækin þurfa á að halda, gera áætlanir um framtíðarhorfur í starfsgreininni, stunda hagrannsóknir, gera úttektir og stunda kennslu. Tilgangur setursins er að leggja grunn að því að verslun á Íslandi verði rekin á faglegri hátt en áður hefur verið.

Einn starfsmaður verður ráðinn til rannsóknasetursins á næstunni. Meginhluti starfs hans verða rannsóknir og þróunarverkefni en auk þess mun hann stunda kennslu á háskólastigi í fögum sem tengjast rannsóknarsviði þess. Engin slík kennsla er í boði hérlendis í dag.

SVÞ áttu frumkvæðið að stofnun Rannsóknaseturs verslunarinnar. Auk samtakanna mun iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið styrkja stofnun þess með fjárframlagi. Þá hefur Pokasjóður lagt verkefninu lið með tveggja millj.kr. framlagi og stór fyrirtæki í verslun veita rannsóknasetrinu fjárhagsstuðning. Viðskiptaháskólinn á Bifröst tekur einnig á sig hluta þess kostnaðar sem til fellur við stofnun rannsóknasetursins. Stefnt er að því að eftir þrjú til fimm ár standi Rannsóknasetrið sjálft undir rekstrinum með sjálfsaflafé.

Stjórn Rannsóknasetursins verður í höndum fjögurra manna stjórnar sem fulltrúar frá SVÞ, smásöluverslunum, Viðskiptaháskólanum í Bifröst og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu skipa.

Með stofnun rannsóknasetursins er komið á fót faglegum stuðningsaðila við þessa fjölmennustu starfsgrein á Íslandi. Ávinningurinn af starfsemi Rannsóknasetursins mun bæði skila sér til í formi bættrar samkeppnisstöðu verslunarinnar, sem sífellt verður alþjóðlegri, og ekki síður til neytenda sem munu njóta meiri fagmennsku verslana í formi bættrar þjónustu og meiri gæða.