Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá hefur endurskoðunarfyrirtækið PwC skilað þrotabúi Sparisjóðabanka Íslands, eða Icebank eins og hann hét um tíma, skýrslu um rúmlega 50 mál sem áttu sér stað innan bankans fyrir fall hans.

Í nóvember 2010 lá fyrir listi um þau mál sem PwC var langt komið með að rannsaka. Mánuði síðar samþykkti slitastjórn Sparisjóðabankans að heimila rannsóknaraðilanum að leita rafrænt í tölvupóstum sem höfðu verið sendir eða mótteknir innan Sparisjóðabankans. Á síðustu mánuðum hefur PwC síðan kynnt alls rúmlega 50 mál fyrir skilanefnd og slitastjórn Sparisjóðabankans sem áttu sér stað í starfsemi hans fyrir fall bankans og fyrirtækið hefur rannsakað. Í sumum tilfellum voru gerðar mjög nákvæmar skýrslur um hvert mál.

Lokaskýrslu skilað

Að sögn Hildar Eddu Harðardóttur, formanns skilanefndar Sparisjóðabankans, skilaði PwC lokaskýrslu sinni fyrir skemmstu. „Núna er þetta í höndum slitastjórnar og það verður farið yfir einstök mál.“

Í þeirri vinnu verður tekin ákvörðun um hvaða málum verði vísað til sérstaks saksóknara og hver þeirra séu grundvöllur fyrir skaðabótaeða riftunarmálaferlum. Niðurstaða þeirrar vinnu mun liggja fyrir í lok september hið síðasta.

Hildur Edda segir þó alls ekki víst að öll málin endi með því að þau verði send til embættis sérstaks saksóknara til frekari rannsóknar eða að höfðuð verði skaðabóta- eða riftunarmál vegna þeirra. Þó að málin sem PwC hafi skilað af sér séu mörg þá sé sennilegt að minnihluti málanna verði vísað áfram.