Líkt og Ríkisútvarpið greindi frá í gærkvöldi hafa fyrrverandi sparisjóðsstjóri SPRON og fjórir fyrrverandi stjórnarmenn verið ákærðir af sérstökum saksóknara fyrir umboðssvik. Snúast hin meintu svik um tveggja milljarða króna lánveitingu til eignarhaldsfélagsins Exista nokkrum dögum fyrir hrun.

Meðal hinna ákærðu eru Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, og Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og stjórnarformaður N1. Á fréttavef RÚV kemur fram að ekki verði breyting á starfshögum þeirra þrátt fyrir ákæruna. Rannveig verður áfram forstjóri að sögn Ólafs Teits Guðnassonar, upplýsingafulltrúa Alcan. Þá á Margrét ekki von á neinum breytingum á sínum högum.

Ákæran verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur 13. október nk.