*

sunnudagur, 16. maí 2021
Fólk 5. nóvember 2020 16:41

Rannveig og Gísli í nýjar stöður

Seðlabankinn ræður Rannveigu Júníusdóttur sem framkvæmdastjóra skrifstofu og Gísla Óttarsson sem áhættustjóra.

Ritstjórn
Rannveig Júníusdóttir hefur starfað hjá Seðlabankanum frá 2011 en Gísli Óttarsson kemur frá Arion banka.
Aðsend mynd

Rannveig Júníusdóttir og Gísli Óttarsson hafa verið ráðin í nýjar stjórnendastöður í Seðlabanka Íslands, en sú fyrrnefnda hefur starfað hjá stofnuninni frá árinu 2011 meðan Gísli kemur frá Arion banka.

Rannveig Júníusdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands. Rannveig hóf fyrst störf hjá Seðlabankanum í gjaldeyriseftirlitinu árið 2011, fyrst sem sérfræðingur undanþágudeildar.

Hún starfaði svo sem sérfræðingur rannsóknardeildar gjaldeyriseftirlitsins frá 2012 til 2013, forstöðumaður rannsókna frá 2013 til 2016, aðstoðarframkvæmdastjóri 2015-2016 og loks framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits frá 2016 til 2019.

Rannveig gegndi stöðu forstöðumanns gjaldeyrisáhættu á fjármálastöðugleikasviði frá 2019 eftir að svið gjaldeyriseftirlits var lagt niður. Hún hefur verið starfandi framkvæmdastjóri skrifstofu bankastjóra frá 8. janúar 2020. Rannveig er með BA- og MA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Gísli Óttarsson hefur verið ráðinn í stöðu áhættustjóra Seðlabanka Íslands. Gísli var framkvæmdastjóri áhættustýringar Arion banka frá 2009 til 2020, en áður var hann forstöðumaður í áhættustýringu Kaupþings banka frá 2006 til 2008 og stjórnandi í hugbúnaðarþróun Mechanical Dynamics Inc frá 1994 til 2006.

Gísli er með BS-gráðu í byggingaverkfræði frá HÍ, MS-gráðu í hagnýtri aflfræði og PhD-gráðu í vélaverkfræði frá University of Michigan, auk þess að vera með próf í verðbréfaviðskiptum.