Afstaða núverandi ríkisstjórnar til stóriðju, í það minnsta annars stjórnarflokksins, er öllum ljós. Blaðamaður Viðskiptablaðsins spyr Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Ísland, um samskiptin við stjórnvöld í ljósi þess að nú er í fyrsta skipti ríkisstjórn starfandi sem er óvinveitt stóriðjunni.

„Þau samskipti ganga ágætlega, við höfum náð ágætis samskiptum við stjórnvöld og getum rætt við þau ýmis mál,“ segir Rannveig og vill ekki gera mikið úr afstöðu ríkisstjórnarinnar til stóriðju.

„Það eru þó mörg erfið mál sem hefur þurft að fara í gegnum. Það komu nýlega fram nokkuð harkalegar og óvæntar skattatillögur á stóriðjuna en við náðum lendingu í því máli. Okkur hefur tekist að tala við stjórnvöld og ég held að þau hafi skilning á því að það þurfi að vera atvinnustarfsemi í landinu. Við sjáum mörgum íslenskum fjölskyldum farborða og við erum ábyrg gagnvart því að halda atvinnustiginu hér uppi. Við getum það ekki nema við skilum vörunni í lagi og fáum einhvern arð út úr þessu. Ég held að sá skilningur sé til staðar þannig að ég kvarta ekki undan því.“

En þið þurfið að verja tíma í viðræður við stjórnmálamenn, í þessu tilfelli sannfæra þá um að hækka ekki skatta, á meðan þið gætuð verið að einbeita ykkur að rekstrinum. Tefur það ykkur ekki?

„Við eigum alltaf í sambandi við stjórnvöld á öllum tímum. Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin reynir nú að hækka skatta er að það vantar upp á reksturinn,“ segir Rannveig.

Þú lítur ekki þannig á að þú eigir í stríði við stjórnvöld eins og margir aðrir atvinnurekendur?

„Nei, alls ekki. Mér finnst stjórnvöld hafa sýnt því sem við erum að gera skilning,“ segir Rannveig.

„Á móti kemur að við þurfum líka að sýna stjórnvöldum skilning á því sem þau eru að gera. Það er mjög erfitt ástand hérna og það er verið að reyna að búa til tekjur. Stundum stangast sjónarmið okkar á, eins og varðandi orkuskattinn, en við leystum þau mál.“

Rannveig hefur ekki verið áberandi í opinberri umræðu undanfarinna ára og blaðamaður kemst ekki hjá því að spyrja um ástæður þess. Hún svarar því til að lítið sé um tækifæri til að útskýra sjónarmið stóriðjunnar.

„Það má þó ekki gleyma því að þótt sumir séu á móti frekari uppbyggingu stóriðju eru fáir á móti því að við rekum þau fyrirtæki sem fyrir eru; fyrirtæki sem halda uppi háu atvinnustigi og færa inn gjaldeyristekjur,“ segir Rannveig.

„Ég heyri ekki marga mótmæla því að við séum að setja í gang 60 milljarða króna verkefni og skapa 620 ársverk í kringum það. Ég held að stjórnvöld á hverjum tíma sjái hag sinn í því að slík verkefni nái framgangi. Það þarf hins vegar að ríkja um það sátt og gagnkvæm virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum. En ég ber ekki stjórnvöldum, hvorki nú né fyrr, slæma sögu í því samhengi.“

_____________________________

Sjá viðtal við Rannveigu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .