„Við Íslendingar erum ekkert mjög spenntir fyrir að fá erlenda fjárfestingu þegar á hólminn er komið," segir Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan og handhafi viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins 2010 í viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins. Hún telur því að töf á erlendum fjárfestingum hér á landi, sem margir segja mikilvægar fyrir aukinn hagvöxt, stafi af því sem hún hafi alltaf stafað af. Hér sé erlend fjárfesting ekki mjög velkomin.

Rannveig minnir á að það varð heimskreppa og hrun mjög víða. „Þannig að ég held að menn megi ekki ofmeta það hversu sködduð erlendir aðilar telja okkur vera. Við verðum líka að líta í eigin barm. Við erum ekki þjóð sem býður erlenda fjárfestingu mjög velkomna. Það ríkir ákveðin tortryggni. Leitum orsakanna hjá okkur sjálfum og verum svolítið gagnrýnni," segir Rannveig Ríst.