Rannveig Rist er meðal þeirra fimm sem bjóða sig fram í stjórn HB Granda. Ný stjórn verður kjörin á aðalfundi félagsins næstkomandi föstudag, 19. apríl. Aðrir í framboði til stjórnar eru Kristján Loftsson, núverandi stjórnarformaður félagsins, Halldór Teitsson, Jóhann Hjartarson og Hanna Ásgeirsdóttir en öll fjögur eru núna í stjórn HB Granda. Kosið er um fimm stjórnarsæti og því er sjálfkjörið í stjórnina.

Á aðalfundinum verður einnig kosið um tillögu stjórnar um greiðslu arðs. Leggur hún til að greiddur verði arður að fjárhæð 1.698 milljónir króna. Stærsti hluthafinn með 40,3% hlutafjár er Vogun hf, sem aftur er í eigu Hvals hf, félags Kristjáns Loftssonar. Hlutur vogunar í arðgreiðslunni verður því um 684 milljónir króna.