Þau stækkunaráform sem álverið í Straumsvík hafði áætlað voru felld í íbúakosningu í Hafnarfirði árið 2007.

Síðan þá hefur iðulega komið fram gagnrýni á þáverandi bæjarstjórn fyrir forystuleysi í málinu og þá sérstaklega Lúðvík Geirsson, þáverandi bæjarstjóra, sem vildi ekki gefa upp sína afstöðu til málsins.

Nú þremur árum seinna, er augljósa spurningin til Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Ísland, hvort henni hafi ekki fundist vanta að bæjarstjórnin tæki ákvörðun eða forystu um hvað átti að gera?

„Bæjarstjórnin seldi okkur lóð undir stækkun og eftir það fórum við í gegnum umhverfismat og fengum starfsleyfi fyrir stækkaðri verksmiðju. Í því ferli höfðu allir aðilar tækifæri til að gera athugasemdir en þær voru aldrei gerðar,“ segir Rannveig í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Við stóðum því allan tímann í þeirri trú að við værum á beinu brautinni. Það kom mér því á óvart þegar ég las um það í fjölmiðlum að það yrði farið í íbúakosningu.“

Rannveig bætir því við að stjórnendur álversins geti ekki mælt með því við eigendur félagsins að ráðast í risastóra fjárfestingu sem sé í óþökk samfélagsins þar sem álverið starfar.

„Það þarf að horfa á þetta í stærra samhengi, við erum ekki að koma hérna til að tjalda til einnar nætur. Við erum að koma með fjárfestingu til margra áratuga,“ segir Rannveig.

„Við töldum að við værum velkomin með okkar áform um stækkun og það kom okkur mjög á óvart að málið skyldi sett í kosningu. Við vorum búin að vinna þetta í góðri trú og setja gríðarlega fjármuni, tíma og erfiði í þetta verkefni. En við búum við lýðræði hérna og þetta var ákvörðun sem íbúar hér tóku. Þar við situr, að minnsta kosti enn sem komið er, en nú hefur að vísu mjög stór hluti Hafnfirðinga óskað eftir því að fá að kjósa aftur um þetta verkefni.“

_____________________________

Sjá viðtal við Rannveigu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .