Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Ísland, hefur tekið við formennsku í stjórn  Skipta hf. af Lýð Guðmundssyni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skiptum til Kauphallarinnar en þessi ákvörðun var tekin á fundi stjórnar Skipta fyrr í dag.

„Með formennsku Rannveigar er tryggð samfelldni í stjórn fyrirtækisins en hún hefur mikla reynslu og þekkingu á rekstri þess,“ segir í tilkynningunni.

Rannveig hefur setið í stjórn Skipta og Símans frá árinu 2002 þegar fyrirtækið var í eigu íslenska ríkisins. Hún var formaður stjórnar frá 2002 til 2005 en hefur síðan verið varaformaður stjórnar.

Þá kemur fram að Lýður Guðmundsson lætur nú af formennsku en mun sitja áfram í stjórn Skipta.

„Það er spennandi að taka aftur við sem formaður. Skipti er vel rekið fyrirtæki sem gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi,“ segir Rannveig í tilkynningunni.

„Fyrirtækinu hefur tekist vel að laga reksturinn að þeim samdrætti sem er í íslensku efnahagslífi og er því ágætlega í stakk búið til að takast á við þá krefjandi tíma sem nú eru. Fjarskipti og upplýsingatækni eru mikilvægar stoðir í atvinnulífinu og ég er sannfærð um að Skipti verði áfram í lykilhlutverki við uppbyggingu á þeim sviðum á Íslandi.“

Lýður Guðmundsson, fráfarandi stjórnarformaður segir í tilkynningunni að það hafi verið gefandi að starfa með stjórnendum Skipta og dótturfélaga undanfarin ár.

„Það er mikil vinna framundan hjá okkur bræðrum við rekstur Bakkavarar og að ljúka því ferli sem Exista er í og því rétt að láta nú af stjórnarformennsku hjá Skiptum,“ segir Lýður.

„Það er mikils virði fyrir Skipti að Rannveig skuli taka þetta verkefni að sér. Hún hefur mikla þekkingu á starfsemi fyrirtækisins og er einn farsælasti stjórnandinn í íslensku atvinnulífi.“