Atvinnuvegaráðuneytið, Landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa stóðu fyrir fundinum „Eru til karla- og kvennastörf?“ í morgun. Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan hélt erindi með yfirskriftinni „Síðasta vígið: konur í iðnaði“ og sagði meðal annars að þar væru konur næstum jafn sjaldséðar og hvítir hrafnar. Einnig kom Rannveig inn á það að jafna þyrfti kröfur til kvenna og karla í starfi.

Bæði kynin á lyftara

Því til stuðnings sagði hún til dæmis að hvorki væri gerð krafa til kvenna né karla að lyfta þungum hlutum hjá þeim í álverinu, þau væru einfaldlega með lyftara sem sæi um að gera það. Þegar Rannveig var aðspurð til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til að fjölga konum í framkvæmdastjórn svaraði hún að það þyrfti að veita þeim aukin tækifæri og jafnframt þyrfti að grípa til róttækari aðgerða en nú er upp á teningnum og bætti við að hún vildi sjá kynjakvóta í framkvæmdastjórnum.

Birna Bragadóttir, starfsþróunarstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hélt erindið „Orka kvenna, ein af auðlindunum“. Þar sagði hún að karla og kvennastörf væru afleiðing af kynbundu náms- og starfsvali, en tölur sýna að það gengur mjög erfiðlega að jafna kynjahlutfall í iðnnámi. Þá sagði hún einnig að kynbundið náms- og starfsval væri félagsmótun en ekki náttúrulögmál og brýndi á mikilvægi þess að fræða ungu kynslóðina um ólík störf og rótgrónar og úreltar staðalímyndir.

Kynbundinn launamunur er minnstur á aldursbilinu 18-27 ára

Að lokum ræddi Sigurður Snævarr hagfræðingur um niðurstöður rannsóknar um kynbundinn launamun. Með niðurstöðunum undirstrikaði Sigurður í raun allt sem erindin tvö á undan höfðu fjallað um þær sýndu meðal annars að aðeins 11% iðnaðarmanna er kvenkyns á Íslandi. Þá sagði hann að niðurstöður úr könnuninni svipaði mjög til kannanna sem höfðu verið gerðar á Norðurlöndunum, atvinnuþáttaka kvenna er gríðarlega mikil en kynskipting eftir störfum og greinum er einnig mjög mikil.

Niðurstöður úr könnuninni sýndu einnig að karlmaður sem er í sambúð eða á börn er líklegri til að fá hærri laun en kona í sömu aðstöðu og að kynbundinn launamunur er minnstur á aldursbilinu 18-27 en eykst svo með aldrinum. Endaði Sigurður erindið sitt með því að svara spurningunni sem fundurinn snerist um, Já, það eru til kvenna- og karlastörf!

Endaði fundurinn með að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Hvatningarverðlaun jafnréttismál en þau hlaut Orkuveita Reykjavíkur.