Svo virðist sem æ fleiri séu að missa tiltrúna á Bandaríkjadalinn. Á dögunum lýsti brasilíska ofurfyrirsætan Gisele Bündchen því yfir að hún tæki eingöngu við greiðslum í evrum og skipaði hún sér þar með á bekk með þekktum fjárfestum eins og Warrent Buffet og Jim Rogers, sem segjast vera svartsýnir á horfur dalsins. Nú eru teikn á lofti um að annað höfuðvígi dalsins sé fallið: Bandarískir rapparar kjósa frekar að sýna auð sinn og velsæld í evrum en dölum.

Í nýju myndbandi bandaríska rapparans Jay-Z við lagið Blue Magic sést hann handfjatla seðlabúnt með 500 evruseðlum. Þykir þetta heyra til töluverðra tíðinda, þar sem myndbandið sver sig í ætt við annað það sem komið hefur úr ranni rappheimsins, en þar er algengt að menn veki athygli á auð sínum með því að fara fjálglega með Bandaríkjadali. Á sama tíma er verðið á nýjasta geisladiski rapphljómsveitarinnar Wu-Tang Clan eingöngu gefið upp í evrum á heimasíðu hljómsveitarinnar.

Í umfjöllun um málið í tímaritinu Newsweek eru meðal annars leiddar að því líkur að áhugi stórmenna á borð við Bündchen og Jay-Z kunni að gera bandarískan almenning meðvitaðan um hversu veik staða Bandaríkjadals er í raun og veru. Sérstaklega í ljósi þess að ekki er eingöngu um að ræða hæfileikafólk á sviði lista og menningar, heldur snjalla fjárfesta. Til að mynda eru auðæfi J-Zay metin á 372 milljónir evra. Tímaritið hefur jafnframt eftir Rafi Kam - sem ritstýrir Oh Word, sem er vefsvæði tileinkað hip hop tónlist - að Jay-Z sé sérstaklega meðvitaður um hvað sé verðmætast hverju sinni. Í ljósi þessa ætti að koma fáum á óvart að hann kýs frekar evrur en dali um þessar mundir.

Greint var frá þessu í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins í dag.