*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 3. ágúst 2021 12:21

Rapyd eykur hlutafé um 37 milljarða

Alþjóðlega fjártæknifélagið Rapyd hefur aukið hlutafé sitt um 300 milljónir dala. Núverandi sem og nýir hluthafar tóku þátt.

Ritstjórn
Garðar Stefánsson, forstjóri Rapyd.
Aðsend mynd

Alþjóðlega fjártæknifélagið Rapyd hefur aukið hlutafé sitt um 300 milljónir dala, eða sem nemur ríflega 37 milljörðum króna. Safnaði félagið nýju hlutafé frá núverandi og nýjum hluthöfum. Hlutafjárútboðið var leitt af Target Global. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Meðal nýrra hluthafa eru sjóðir Fidelity Management and Research Company, Altimeter Capital, Whale Rock Capital, BlackRock Funds og Dragoneer. Aðrir núverandi hluthafar félagsins tóku einnig þátt, s.s. General Catalyst, Latitude, Durable Capital Partners, Tal Capital, Avid Ventures og Spark Capital.

Hlutfjárútboðið kemur í kjölfar kaupa Rapyd á greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor, sem háð eru samþykki eftirlitsaðila, og stofnunar framtakssjóðsins Rapyd Ventures sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum í fjártækni.

Í fréttatilkynningunni segir að hlutafjáraukningin muni gera Rapyd kleift að nýta tækifæri sem séu drifin áfram af kröfum um rafræna greiðslumiðlun, sem auðvelt sé að tengja við aðra fjármálaþjónustu, og byggi á skalanlegum tæknilausnum. Fjármunirnir verði enn fremur nýttir í innri og ytri vöxt félagsins, með áframhaldandi styrkingu innviða og fjárfestingum.

Stikkorð: hlutafjáraukning Rapyd