Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gaf út tilkynningu í morgun um að stofnunin hafi samþykkt kaup ísraelska félagsins Rapyd Financial Network á íslenska greiðslumiðlunarfyrirtækinu Korta.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Ariel Shitilman, framkvæmdastjóri Rapyd, væri hæfur til að fara með yfir 50% óbeinan virkan eignarhlut í Korta og að bandaríska sjóðastýringarfélagið General Catalyst Group Management, LLC, sem og félög tengd þeim aðila, væru hæf til að fara með allt að 20% óbeinan virkan eignarhlut í Korta.

„Við erum ánægð með að hafa klárað þessi viðskipti sem eru mjög stefnumótandi fyrir okkur. Nú tekur við vinna við samþættingu færsluhirðingar Korta við fjártæknilausnirnar okkar. Við viljum bjóða íslenskum og evrópskum fyrirtækjum upp á alþjóðlegar greiðslulausnir, hvort sem það er á staðnum eða vefnum. Við viljum að viðskiptavinir okkar hafi aðgang að fyrsta flokks fjártæknilausnum og geti þannig einbeitt sér að því að auka umsvif sín og dafna á sínu sviði,“ er haft eftir Shitilman í fréttatilkynningu Korta.

Í tilkynningunni segir að Rapyd mun fjárfesta í starfseminni Reykjavík og gera áætlanir félagsins ráð fyrir auknum vexti og frekari ráðningum á næstu misserum.

„Þetta eru spennandi tímar þar sem fyrirtæki sem er fremst í flokki í fjártækni í heiminum er að fjárfesta beint í starfsemi á Íslandi sem mun gera okkur kleift að veita íslenskum viðskiptavinum aðgang að fyrsta flokks fjártækni,“ segir Jakob Már Ásmundsson, forstjóri Korta.

Þegar kaupin voru fyrst tilkynnt í apríl kom fram að „hluti kaupverðs tekur mið af rekstri Korta á þessu ári og því liggur ekki fyrir hvert endanlegt kaupverð verður fyrr en í upphafi næsta árs“. Einnig kom fram að kaupverðið yrði greitt með reiðufé.

Kvika banki, sem átti 41% í Korta, sagði í sömu tilkynningu að „núverandi mat bankans á kaupverði fyrir eignarhlut bankans í Korta er að það verði í samræmi við bókfært virði hlutarins um síðastliðin áramót og hafi því ekki áhrif á afkomu bankans á þessu rekstrarári".